Flýtilyklar
Fréttir
Vindmyllur í Grímsey
Eins og áður hefur komið fram stendur til að reisa vindmyllur í Grímsey. Þar með mun eldsneytisnotkun Grímseyjar lækka sem nemur u.þ.b. 10% en til þessa hefur Grímsey eingöngu notast við jarðefnaeldsneyti við framleiðslu á raforku í eynni.
Vindmyllurnar sem settar verða upp eru frá skoska fyritækinu SD Wind Energy. Fyrirtækið hefur yfir 30 ára reynslu og er talið bera af þegar kemur að framleiðslu minni vindmylla.
Vindmyllurnar eru af gerðinni SD6 og koma til með að framleiða allt að 6kW hver. Vindmyllurnar eru með vinsælli minni vindmyllum í heiminum og hafa verið með þeim mest seldu í heiminum í yfir 25 ár.
SD6 vindmyllurnar tryggja stöðuga framleiðslu en spaðarnir hafa þann eiginleika að geta reglað sig, svo of hár vindur hefur ekki neikvæð áhrif. Spaðarnir fara því aldrei ‚of hratt‘ og aldrei svo hratt að fuglar geti ekki numið hreyfingu þeirra, en send var fyrirspurn sérstaklega þess efnis.
Ef allt gengur eftir munu framkvæmdir byrja á næstu vikum og verður spennandi að sjá hvernig raforkuframleiðsla mun ganga í Grímsey í náinni framtíð.