Árið 1904 kom fyrsti bíllinn til Íslands og hófst þá svokölluð bílaöld hér á landi. Bílanotkun íslendinga hefur farið stigvaxandi síðan þá og er algjört einsdæmi að hinn dæmigerði íslendingur eigi ekki bíl eða taki ekki bílpróf um leið og færi gefst til. Þessir bílar hafa hingað til flestir verið reknir á bensíni og dísel en er nú stóra markmiðið að minnka það hlutfall til muna.
Akureyrarbær hefur nú sett sér markmið að verða að kolefnishlutlausu samfélagi og fjölga þar með vistvænni bílum. Á vef Samgöngustofu má sjá að innflutningur rafbíla hófst í kringum árið 2014 og eykst fjöldi þeirra hér á landi alltaf frá ári til árs. Þá eru einhvers konar rafbílar orðnir í miklum meirihluta innfluttra bíla hvort sem það er hreinir rafbílar, eða blandaðir raf- og bensínbílar.
Fallorka hvetur fólk til að huga að orkuskiptum og hefur því sett upp hleðslustöðvar við vinsæla og fjölfarna staði á Akureyri. Víða á landinu er að finna fleiri hleðslustöðvar sem aðgengar eru almenningi. Þær eru flestar að finna á kortsjá Orkustofnunnar.
Á vef Vistorku má svo finna ýmsar upplýsingar sem geta gagnast vel þegar hugað er að rafbílum og hleðslustöðvum við heimahús.