Flýtilyklar
Fréttir
Fallorkustígurinn
Árið 2018 var Glerárvikjun II virkjuð. Stöðvarhúsið hefur ekki farið framhjá flestum Akureyringum en það er staðsett við Glerá þorpsmegin, á móti Möl&Sand. Stíflan er þar ofar í Glerárdal en glöggir hafa kannski séð glitta í hana á leið sinni upp Hlíðarfjallsveg.
Í kjölfar uppsetningu virkjunarinnar stóð Fallorka fyrir og kostaði stíg meðfram ánni sem síðan hefur verið mjög vinsæll meðal gangandi, hlaupandi og hjólandi fólks. Stígurinn liggur frá stöðvarhúsinu, upp að stíflunni, yfir hana en þaðan er hægt að velja hvort haldið er niður að bílastæðinu við Súlur eða áfram upp að Lamba ofarlega í Glerárdal.
Frá komu stígsins, árið 2019, hafa ófáir lagt leið sína eftir honum, að minnsta kosti að hluta, og jafnvel skipulagðar ferðir gerðar innan ýmissa hópa, til að mynda göngu-, vina- og fjölskylduhópa sem er mikið gleðiefni. Vinsældir hans fara vaxandi með hverjum deginum og má nefna að hlaupaleiðin í Súlur Vertical hlaupinu fer eftir stígnum að hluta.
Stígurinn er 7 km langur frá stöðvarhúsinu upp að stíflu og um 9 km frá stíflunni að Lamba, hann hentar því einstaklega vel í sunnudagshreyfinguna.