Fréttir

Hlé á framleiðslu í Glerárvirkjunum

Hlé á framleiðslu í Glerárvirkjunum
Mynd: Árni Sveinn Sigurðsson

Ekki hefur farið framhjá mörgum þau hlýindi sem hafa verið á Akureyri síðustu daga. Hlýindin hafa haft meira í för með sér en bara sólbað og ísferðir en margir hafa kannski tekið eftir að vatnsmagn hefur aukist verulega í ám víða á Norðurlandi. Vatnsmagn Glerár er nú orðið meira en sést hefur í um það bil þrjátíu ár og er talið hafa náð um 40 m3/sek. Við biðjum fólk því að fara mjög varlega í nágrenni árinnar. Vatnsmagnið hefur einnig áhrif á vélar virkjananna því að gras og trjágreinar hlaðast stöðugt á inntaksristar. Frá aðfaranótt miðvikudags hefur því dregið ansi mikið úr framleiðslu raforku frá Glerárvirkjunum en þegar þetta er skrifað hefur verið slökkt á vélunum tímabundið. Ekki er vitað hversu lengi virkjanirnar verða úti en staðan er reglulega skoðuð og vonast er til þess að þær geti hafið framleiðslu á ný sem fyrst, þá sérstaklega Glerárvirkjun II. 

Í Djúpadal er vatnsmagnið einnig mjög mikið en enn sem komið er, gengur framleiðslan vel og eru Djúpadalsvirkjanir að framleiða samanlagt um 2,6 MW sem er full framleiðsla.

Þegar Glerárvirkjanirnar framleiða ekki raforku vantar um helming af raforkuframleiðslu hjá Fallorku. Á meðan á þessu stendur kaupir Fallorka raforku frá öðrum framleiðendum í auknum mæli og þurfa neytendur því ekki að hafa áhyggjur af raforkuskorti. 

 


Svæði

Skrifstofa fallorku

Opið alla virka daga frá 8-16

Lokað um helgar.